Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Liechtenstein í J-riðli undankeppni HM 2022 í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld en þetta er síðasti heimaleikur Íslands í undankeppninni.
Ísland er með 5 stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins en síðustu tveir leikir undankeppninnar verða útileikir gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu í nóvember.
Íslenska liðið hefur unnið einn leik í undankeppninni til þessa en það var einmitt gegn Liechtenstein í Vaduz 31. mars þar sem þeir Birkir Már Sævarsson, Birkir Bjarnason, Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson skoruðu mörk Íslands í 4:1-sigri.
Af þeim fjórum sem skoruðu mörk Íslands í Vaduz í mars er aðeins einn leikfær gegn Liechtenstein í kvöld en það er Birkir Bjarnason. Birkir Már Sævarsson tekur út leikbann, Guðlaugur Victor Pálsson dró sig óvænt úr landsliðshópnum í gær og Rúnar Már Sigurjónsson var ekki valinn fyrir verkefnið.
Ásamt Birki Má verða þeir Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson einnig í leikbanni í kvöld og geta því ekki tekið þátt í leiknum gegn Liechtenstein.
Þá eru þeir Brynjar Ingi Bjarnason og Mikael Anderson báðir tæpir vegna meiðsla en Brynjar Ingi hefur byrjað síðustu fjóra leiki íslenska liðsins í undankeppninni.
Andri Lucas Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson eru hins vegar heilir heilsu og klárir í slaginn eftir að hafa misst af leiknum gegn Armeníu á Laugardalsvelli á föstudaginn síðasta vegna meiðsla.
Þá má leiða að því líkur að Andri Fannar komi inn í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Liechtenstein en hann lék stórt hlutverk í síðasta landsleikjaglugga þegar Ísland mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi á Laugardalsvelli í september.
Líklegt byrjunarlið Íslands: Elías Rafn Ólafsson - Alfons Sampsted, Hjörtur Hermannsson, Daníel Leó Grétarsson, Guðmundur Þórarinsson - Birkir Bjarnason, Andri Fannar Baldursson, Þórir Jóhann Helgason - Albert Guðmundsson, Viðar Örn Kjartansson, Jón Dagur Þorsteinsson.