Von á fjölda áhorfenda á Laugardalsvelli

Mætingin var ansi dræm á leik Íslands og Armeníu á …
Mætingin var ansi dræm á leik Íslands og Armeníu á föstudaginn síðasta. mbl.is/Unnur Karen

„Miðasalan á landsleikinn gegn Liechtenstein hefur gengið mjög vel og í raun framar vonum,“ sagði Óskar Örn Guðbrandsson, starfsmaður samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Ísland mætir Liechtenstein í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld en þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 3.500 manns sótt sér miða á leikinn.

Börn 16 ára og yngri fá frítt á leikinn en á síðasta landsleik liðsins gegn Armeníu á föstudaginn mættu í kringum 1.600 áhorfendur og KSÍ fór því af stað með átak til þess að fá fólk til að mæta á völlinn.

„Frá því í gærmorgun hafa selst yfir 2.000 miðar úr kerfinu,“ sagði Óskar.

Það eru mörg börn og unglingar sem hafa sótt sér miða og þá hafa bakhjarlar KSÍ komið mjög sterkir inn líka. Það þurfa allir að vera með miða sem koma á völlinn og því mikilvægt að fólk sæki sér þá í gegnum Tix.is, ef það ætlar að mæta.

Það er frábært veður í dag þó það sé pínu kalt en við vonumst að sjálfsögðu til þess að fólk mæti á völlinn og haldi uppi góðri stemningu. Við getum tekið við allt að 6.000 manns  vegna sóttvarnareglna og við erum vongóð um að miðarnir haldi áfram að rjúka út áður en flautað verður til leiks í kvöld,“ bætti Óskar við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert