Hannes Þór Halldórsson, fráfarandi landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, segist ekki vera inni í áætlunum Valsmanna á næsta keppnistímabili.
Hannes var í viðtali í Síðdegisþættinum á útvarpsstöðinni K100 í dag og Logi Bergmann Eiðsson spurði Hannes út í gang mála hjá Val. Segir hann Heimi Guðjónsson, þjálfara Vals, hafa tilkynnt sér að hann væri ekki inni í myndinni á næsta tímabili. Síðan þá hafi hann ekkert heyrt frekar frá Valsmönnum.
„Ég get alveg sagt hlutina eins og þeir eru og það sem ég veit. Ég veit að þjálfarinn vill ekki hafa mig hjá félaginu. Ég hef hvorki heyrt hósta né stunu frá félaginu síðan mér var tilkynnt það. Ég veit ekki hvers vegna eða hvernig menn hyggjast leysa þessa skrítnu stöðu sem er komin upp. Ég er bara steinhissa á þessu ef ég að segja alveg eins og er,“ sagði Hannes meðal annars í viðtalinu en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Val.
Tilkynnt var á dögunum að Valur hefði nælt í hollenska markvörðinn Guy Smit sem leikið hefur með Leikni síðustu tvö tímabil.
Hannes sagðist ekki hafa hugsað sér að hætta knattspyrnuiðkun á þessum tímapunkti og alls ekki á þessum nótum. Hann segist ekki vita hvernig eigi að leysa málið því hann hafi ekkert heyrt frá Val. Hannes bætti því við að hann ætlaði ekki að fara djúpt ofan í þessi mál í útvarpsþættinum.
„Ég var bara fullur af eldmóði að byrja nýtt tímabil og ætlaði mér virkilega að taka þátt í að svara fyrir þetta [nýafstaðið keppnistímabil], safna vopnum og vinna titilinn aftur á næsta ári. En svo kom þetta óvænta twist,“ sagði Hannes einnig í spjalli við þá Loga og Sigga Gunnars.
Hægt er að hlusta á spjall Loga og Sigga við Hannes í spilaranum hér að neðan.