Magnea Guðlaugsdóttir er aftur tekin við kvennaliði ÍA í knattspyrnu.
Frá þessu var greint í dag en Magnea mun einnig þjálfa 2. flokk kvenna. Magnea stýrði ÍA á árunum 2013 og 2014.
Hún hefur lengi þjálfað hina ýmsu aldurshópa hjá félaginu og er í hópi leikjahæstu leikmanna kvennaliðsins. Var hún til að mynda í liði ÍA sem síðast vann stóru keppnirnar: Íslandsmótið 1987 og bikarkeppnina 1992. Auk þess lék Magnea 8 A-landsleiki á sínum tíma.
ÍA leikur í 2. deild, þeirri þriðju efstu á Íslandsmótinu, á næsta tímabili eftir fall úr næstefstu deild í sumar.