Víkingur úr Reykjavík varð í dag fimmta félagið í sögunni til að verða tvöfaldur meistari í karlaflokki í knattspyrnunni hér á landi, þ.e. bæði Íslands- og bikarmeistari, með því að sigra ÍA í úrslitaleiknum á Laugardalsvellinum.
KR-ingar urðu fyrstir til þess árið 1961 og léku sama leik árin 1963, 1999 og 2011.
Valsmenn komu næstir þegar þeir urðu Íslands- og bikarmeistarar árið 1976.
Skagamenn unnu tvöfalt árin 1983 og 1984 og aftur árin 1993 og 1996.
Eyjamenn urðu tvöfaldir meistarar árið 1998.
Víkingar eru tvöfaldir meistarar árið 2021.
Keflvíkingar misstu af tækifæri til að vinna tvöfalt árið 1973 þegar þeir töpuðu bikarúrslitaleiknum gegn Fram, fyrsta úrslitaleik sögunnar á Laugardalsvellinum.
Framarar áttu möguleika á tvöföldum sigri árið 1986 en töpuðu þá fyrir Skagamönnum sem unnu 2:1 með tveimur mörkum Péturs Péturssonar.