Fyrir íslenskan fótboltamann er þetta toppurinn

Kári Árnason var kampakátur í leikslok.
Kári Árnason var kampakátur í leikslok. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Kári Árnason var kampakátur eftir 3:0-sigur Víkinga á ÍA í bikarúrslitum í fótbolta í dag. Með sigrinum tryggðu Kári og liðsfélagar hans sér tvöfaldan sigur, en Víkingur varð Íslandsmeistari á dögunum. 

„Maður hefur alltaf trú fyrir tímabilið en ég átti ekki endilega von á að við myndum skrá okkur á spjöld sögunnar og vinna tvöfalt. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Kári við mbl.is eftir leik.

Kári, sem er 39 ára, var að leika sinn síðasta leik á ferlinum. „Ég er bara búinn og ég er mjög sáttur við þá ákvörðun. Ég er eins ánægður með að hafa tekið þetta eina ár í viðbót eins og mögulegt er. Ég er alsæll.“

Kári er uppalinn Víkingur og því fullkominn endir á glæstum ferli a vinna tvöfalt með uppeldisfélaginu. 

„Fyrir íslenskan fótboltamann er þetta toppurinn; að vinna Íslandsmeistaratitilinn og vinna allt sem er í boði. Við töpuðum tveimur leikjum á tímabilinu og það dregur strik yfir hvað er besta liðið á Íslandi í dag. Að vera partur af því og sjá þessa stráka vaxa og dafna. Fyrir utan mig, Halla og Ingvar var meðalaldurinn hjá okkur sem klárum leikinn um tvítugt. Það er ótrúlegt að hafa tekið þátt í þessari vegferð,“ sagði hann. Kári hrósaði ÍA sömuleiðis eftir leik. 

„Skagamenn eru flottir og hafa sýnt það síðustu vikur að þeir eru góðir. Við fáum samt sem áður dauðafæri sem eiga að klára leikinn í byrjun seinni hálfleiks. Þeir voru hættulegir og við vorum að hleypa þeim í góð tækifæri með að tapa boltanum á miðjunni. Ég nenni samt ekki að nöldra yfir því, við erum bikarmeistarar,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka