Spiluðum á móti toppliðum og rústuðum þeim

Skagamenn þurftu að sætta sig við silfur í dag.
Skagamenn þurftu að sætta sig við silfur í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Englendingurinn Alexander Davey lék allan leikinn með ÍA er liðið þurfti að sætta sig við 0:3-tap fyrir Víkingi úr Reykjavík í bikarúrslitum í fótbolta á Laugardalsvelli í dag. Eins og gefur að skilja var hann svekktur í leikslok. 

„Það er erfitt að sætta sig við þetta því við vorum langt frá okkar besta í fyrri hálfleik. Þetta var dæmigert fyrir tímabilið okkar því við grófum okkur holu. Í seinni hálfleik börðumst við og sýndum miklu meira. Við gáfum allt sem við áttum en stundum er fótboltinn svona. Við verðum hins vegar í deildinni og bikarnum á næstu leiktíð og við verðum miklu betri,“ sagði Davey í samtali við mbl.is eftir leik.

„Við erum með reynslumikla leikmenn og svo unga og sterka leikmenn. Tilefnið nær eflaust eitthvað til allra. En sjáðu stuðningsmennina okkar, þeir eru að syngja þótt við töpuðum. Þetta er tilfinningaríkt og við lifum fyrir þessi augnablik, þess vegna spilum við fótbolta,“ bætti hann við, með syngjandi stuðningsmenn ÍA fyrir aftan sig.

Stuðningsmenn ÍA létu vel í sér heyra, þrátt fyrir tap.
Stuðningsmenn ÍA létu vel í sér heyra, þrátt fyrir tap. Ljósmynd/Óttar Geirsson

ÍA fékk fín færi til að minnka muninn í 2:1 í seinni hálfleik, en í staðinn skoraði Helgi Guðjónsson þriðja mark Víkings í uppbótartíma. „Í níu af hverjum tíu skiptum skorum við úr þessum færum, en í dag gerðum við það ekki. Stundum er fótboltinn svona. Á öðrum degi hefði einhver getað skorað þrennu hjá okkur. Dómarinn átti svo ekki sinn besta dag, en það er erfitt að vera dómari.“

Tímabilið hjá ÍA var skrautlegt. Flestir voru búnir að dæma liðið niður um deild þegar fimm leikir voru eftir af leiktíðinni, en með glæsilegum endaspretti tókst Skagamönnum að lokum að halda sér uppi í deild þeirra bestu.

„Byrjunin á tímabilinu var erfið bæði fyrir mig og liðið. Þetta var mín fyrsta leiktíð hér og við vorum með ungt lið og að glíma við mikið af meiðslum. Við hættum hinsvegar aldrei. Stuðningsmennirnir hætta aldrei, félagið hættir aldrei og við leikmenn hættum aldrei. Við viljum alltaf meira.

Við spiluðum á móti toppliðum í síðustu fimm leikjunum í deildinni en við rústuðum þeim. Ég vil ekki heyra neinn segja að við séum fokking fallnir á næsta tímabili. Næsta tímabil verður allt öðruvísi,“ sagði Davey ástríðufullur að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka