Sölvi Geir Ottesen lék sinn síðasta knattspyrnuleik á löngum og farsælum ferli er hann fagnaði bikarmeistaratitli með liðsfélögum sínum í Víkingi eftir 3:0-sigur á ÍA í bikarúrslitaleik á Laugardalsvelli í dag.
Tímabilið var erfitt hjá Víkingi síðasta sumar, en allt gekk upp hjá liðinu á þessu tímabili og Íslands- og bikarmeistaratitill raunin.
„Það er margt sem þarf að gerast til að þetta heppnist en maður hefur alltaf trú á verkefninu. Maður ætlar sér að vinna alla leiki og vinna þetta allt saman. Maður veit samt líka að það þarf að vera raunsær og það eru ekki miklar líkur á að þetta gerist og þess vegna er geggjað að klára þetta svona,“ sagði Sölvi við mbl.is eftir leik.
Hann var tekinn af velli í síðasta skipti á ferlinum þegar um tíu mínútur voru eftir. Sölvi viðurkennir að það hafi verið tilfinningalegt augnablik.„Það voru smá tilfinningar sem komu aftan að manni, ég er ekki frá því að ég hafi fengið smá í hálsinn.“
Sölvi segir lokatölurnar gefa rétta mynd af leiknum, en Víkingur spilaði heilt yfir vel á báðum endum vallarins. „Í raun og veru. Þeir fengu tvö góð færi í seinni hálfleik en við fengum líka urmul af færum í seinni hálfleik. Við vorum þéttir í vörninni og gáfum fá færi á okkur. Mér fannst þetta sanngjörn úrslit og við erum verðskuldaðir Íslands- og bikarmeistarar.“
Sölvi lék sinn síðasta leik á ferlinum í dag og ætlar að leyfa sér að fagna sérstaklega mikið við tilefnið. Varnarmaðurinn glímdi við meiðsli á lokaspretti ferilsins og því afar sætt að ljúka honum á þessum nótum.
„Ég ætla að byrja á því að fagna þessu innilega í kvöld. Ég þarf ekki að mæta á fleiri æfingar eða fleiri leiki, svo ég get leyft mér að fagna extra mikið. Líkaminn er búinn að bíða lengi eftir þessu augnabliki,“ sagði Sölvi kampakátur.