Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík fullkomnuðu stórkostlegt tímabil með því að vinna 3:0-sigur á ÍA í bikarúrslitaleik á Laugardalsvelli á laugardaginn var.
Víkingur varð með því aðeins fimmta félagið í sögunni til að verða tvöfaldur meistari í knattspyrnu í karlaflokki og fyrsta liðið frá því KR varð tvöfaldur meistari árið 2011.
Sigurinn var verðskuldaður því Víkingur var betri á flestum sviðum, þrátt fyrir að ÍA hafi fengið sín tækifæri. Pablo Punyed var besti maður vallarins en hann lagði upp bæði mörk Víkings í fyrri hálfleik. Það fyrra kom á 18. mínútu er hann sendi Erling Agnarsson einan í gegn og Erlingur sá um að skora. Það seinna kom í uppbótartíma er hann spyrnti boltanum í höfuðið á Kára Árnasyni og í netið. Varamaðurinn Helgi Guðjónsson fullkomnaði svo magnað tímabil með því að skora þriðja markið í uppbótartíma í seinni hálfleik.
Sigurinn var ekki aðeins staðfesting á því að Víkingur er besta lið Íslands í dag, heldur líka falleg kveðjustund fyrir tvo magnaða uppalda Víkinga. Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen eru á meðal bestu varnarmanna Íslands í seinni tíð og þeir stigu síðasta dansinn saman með glæsibrag.
Kári og Sölvi áttu magnaða ferla og er óhætt að segja að þeir hætta á toppnum. Kári viðurkenndi í viðtali við Morgunblaðið eftir leik að hann hefði ekki trúað því að Víkingur yrði tvöfaldur meistari í ár. Kára var þá skítkalt, með mjólk í andlitinu (auðvitað er sigri í Mjólkurbikarnum fagnað með mjólk) og haltrandi. Hann er eflaust feginn að vera hættur!
Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag.