Nóg blek í pennanum á Hlíðarenda

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen í baráttunni í leik með Val gegn …
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen í baráttunni í leik með Val gegn ÍBV í sumar. Ljósmynd/Sigfús

Íslandsmeistarar Vals í knattspyrnu kvenna halda áfram að framlengja samninga leikmanna sinna. Í dag tilkynnti knattspyrnudeild félagsins að Sólveig Jóhannesdóttir Larsen væri búin að skrifa undir nýjan tveggja ára samning.

Sólveig gekk til liðs við Val fyrir nýafstaðið tímabil. Kom hún frá Fylki en hefur einnig leikið með HK/Víkingi, Augnabliki og Breiðabliki, þar sem hún er uppalin.

Hún lék 16 deildarleiki fyrir Val á tímabilinu og lék einnig þrjá bikarleiki þar sem hún skoraði tvö mörk.

Undanfarið hefur fjöldi leikmanna Vals framlengt samninga sína, þar á meðal Lára Kristín Pedersen og reynsluboltarnir Fanndís Friðriksdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka