Knattspyrnumaðurinn Ingi Þór Sigurðsson, leikmaður ÍA, er farinn til Feneyja þar sem hann mun æfa með ítalska A-deildarliðinu Venezia, sem eldri bróðir hans Arnór Sigurðsson leikur með.
Ingi Þór er aðeins 17 ára gamall en hefur þegar leikið 13 deildarleiki fyrir ÍA í efstu deild, þar af átta í sumar, þar sem hann skoraði tvö mörk og lagði upp annað.
Arnór, sem er 22 ára gamall, er á láni hjá Venezia frá rússneska félaginu CSKA Moskva. Þá er Bjarki Steinn Bjarkason einnig samningsbundinn Venezia.
Jakob Franz Pálsson, Kristófer Jónsson og Hilmir Rafn Mikaelsson eru auk þess samningsbundnir félaginu og leika með U19-ára liði þess.