„Samkeppnin gerir mig betri“

Stefan Alexander Ljubicic.
Stefan Alexander Ljubicic. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefan Alexander Ljubicic gekk í dag í raðir knattspyrnuliðs KR frá HK. Stefan er 22 ára gamall framherji sem skoraði sex mörk í Pepsi Max-deildinni síðasta sumar. 

„Tilfinningin er mjög góð. KR er eitt af stærstu liðum landsins og ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta.“

Stefan gengur eins og áður sagði til liðs við KR frá HK. HK-ingar féllu úr deildinni og munu leika í næst efstu deild að ári. Stefan segir að það hafi vel komið til greina að vera áfram í HK.

„Það kom til greina. Ég átti ár eftir af samningi en þegar KR heyrðu í mér fór ég að hugsa það. Þeir náðu að sannfæra mig og Viktor [Bjarki Arnarsson] er náttúrlega kominn í KR líka, ég hef unnið með honum síðustu tvö ár sem hjálpaði mikið.“

„Það voru nokkur lið sem vildu fá mig en ekkert eins og KR. Þeir voru eiginlega eina liðið sem vildi virkilega mikið fá mig. Ég vildi bara fara til liðs sem vildi 100% fá mig svo ég bara mjög ánægður með að þetta hafi verið klárað.“

Bæði Stefan og Sigurður Bjartur Hallsson, sem einnig gekk til liðs við KR í dag, eru framherjar. Fyrir eru í KR m.a. þeir Kristján Flóki Finnbogason og Kjartan Henry Finnbogason. Það er því gífurleg samkeppni um stöðurnar í liðinu.

„Samkeppni gerir leikmenn bara betri, við viljum hana. Þetta er klúbbur sem vill vinna og það eru bara bestu mennirnir sem spila. Mér líkar samkeppnin, hún gerir mig betri og lætur mig vinna harðar og æfa meira.“

KR fer í evrópukeppni á næsta ári eftir að Íslandsmeistarar Víkings urðu einnig bikarmeistarar.

„Ég horfði á Víkingsleikinn og var mjög stressaður. En evrópukeppnin er risa bónus og ein af ástæðunum af hverju mig langaði í KR.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka