„Stökk á tilboðið“

Sigurður Bjartur í leik með Grindavík gegn Þór.
Sigurður Bjartur í leik með Grindavík gegn Þór. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Framherjinn Sigurður Bjartur Hallsson er einn þriggja nýrra leikmanna knattspyrnuliðs KR sem tilkynntir voru í dag. Sigurður kemur til KR frá Lengjudeildar liði Grindavíkur þar sem hann átti frábært sumar og skoraði 17 mörk í 21 leik.

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Gaman að fá að skipta um umhverfi og breyta til,“ sagði Sigurður á blaðamannafundi í dag þar sem undirskriftirnar voru tilkynntar.

Sigurður segir að KR hafi heillað hann mjög mikið og að hann hafi ekki þurft að hugsa sig mikið um þegar tilboðið barst.

„Bjarni Guðjónsson hafði samband við mig og ég var strax mjög spenntur fyrir KR. Ég eiginlega bara stökk á það. Það eru orðin tvö ár síðan ég spilaði í efstu deild og ég er búinn að hlakka til að fá að prófa það aftur.“

„Það voru nokkur önnur lið sem komu til greina en ég vil ekki nafngreina þau. Í raun og veru kom ekki til greina að vera áfram í Grindavík. Mér fannst ég þurfa að taka skrefið upp á við til að koma í veg fyrir að ég staðni sem leikmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka