Elín Metta Jensen verður ekki með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Tékklandi og Kýpur í undankeppni HM 2023.
Ísland mætir Tékklandi 22. október og svo Kýpur 26. október en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.
Selma Sól Magnúsdóttir var kölluð inn í hópinn í gær í stað Elínar Mettu þegar ljóst var að Elín gæti ekki tekið þátt í verkefninu vegna meiðsla sem hafa verið að hrá hana síðan í lok síðasta tímabils.
„Elín Metta var ekki klár í þetta verkefni og við vorum undirbúin fyrir það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.
„Selma Sól kemur inn í þetta í hennar stað en hún er fyrst og fremst hugsaður sem kantmaður. Selma hefur náttúrulega spilað marga leiki sem kantmaður með landsliðinu og hún býr yfir reynslu líka með liðinu.
Hún er góð í að koma sér í stöður, hún er með góðar fyrirgjafir og sterk í stöðunni einn á einn,“ sagði Þorsteinn meðal annars á fundinum í dag.