„Heiður að sjá byrjunina á vonandi glæsilegum ferli hennar“

Sveindís Jane Jónsdóttir bætir sig stöðugt.
Sveindís Jane Jónsdóttir bætir sig stöðugt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sif Atladóttir, miðvörðurinn reyndi hjá sænska félaginu Kristianstad og íslenska kvennalandsliðinu, segir Sveindísi Jane Jónsdóttur, samherja sinn hjá báðum liðum, vera að bæta sig afar hratt.

Sveindís Jane var undir lok síðasta árs keypt til þýska stórveldisins Wolfsburg og strax lánuð til Kristianstad.

Þar hefur henni gengið afar vel í sænsku úrvalsdeildinni á fyrsta tímabili sínu í atvinnumennsku enda búin að skora sex mörk og leggja upp önnur fjögur í 17 deildarleikjum.

„Hún er að taka alveg gríðarleg skref fram á við. Það er náttúrlega rosalegur munur á því að færa sig frá Íslandi og fara erlendis. Sænska deildin er frekar taktísk og hún er að bæta sig mjög hratt þar.

Það er búið að vera ógeðslega gaman að spila með henni og vera með henni svona fyrstu skrefin erlendis. Það er bara heiður fyrir mig að fá að vera með henni á vellinum og sjá byrjunina á vonandi glæsilegum ferli hennar,“ sagði Sif á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Íslenska kvennalandsliðið á mikilvægan leik gegn Tékklandi fyrir höndum á föstudagskvöld í undankeppni HM 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka