„Vitum hvernig við viljum nálgast verkefnið“

Þorsteinn Halldórsson á fundinum í dag.
Þorsteinn Halldórsson á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þær eru allar heilar og tilbúnar í slaginn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, um stöðuna á leikmannahópnum fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni HM í knattspyrnu á morgun. 

Þorsteinn segir að Tékkarnir geti varist vel og mikilvægt gæti reynst að lenda ekki undir í leiknum. „Það gæti verið mikilvægt að lenda ekki undir í leiknum. Tékkunum líður ekki illa þegar þær þurfa að verjast. Þær eru líkamlega sterkar og það getur verið erfitt að spila á móti þessu liði,“ sagði Þorsteinn og vildi ekki fara mikið út í hvernig íslenska liðið hyggst spila.

„Ég ætla ekki að segja til um það nákvæmlega en við þurfum að hafa mikið fyrir því að vinna Tékkland. Við þurfum að pressa á ákveðnum tímum í leiknum og á ákveðnum stöðum. Við viljum fá Tékkana inn í ákveðin svæði á vellinum. Við vitum hvernig við viljum nálgast verkefnið og við erum undirbúin undir hörkuleik.“

Spurður um hvort miklar breytingar verði gerðar á byrjunarliði Íslands glotti Þorsteinn og sagði að þær gætu orðið einhverjar. „Það getur vel verið en kemur bara í ljós. Byrjunarliðið verður hugsanlega eitthvað breytt en gæti orðið alveg eins,“ sagði Þorsteinn Halldórsson á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í hádeginu. 

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert