Eiginlega öll færin okkar enduðu með marki

Dagný kemur Íslandi í 2:0 með glæsilegu skallamarki.
Dagný kemur Íslandi í 2:0 með glæsilegu skallamarki. mbl.is/Unnur Karen

„Þetta var frábær sigur, fjögur mörk og að halda hreinu,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 4:0 sigur gegn Tékklandi í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við höfum held ég aldrei unnið Tékka áður og þetta eru fyrstu þrjú stigin okkar í riðlinum þannig við erum bara yfir okkur glaðar með þennan sigur,“ bætti hún við.

Í undankeppninni fyrir HM 2019 gerði íslenska liðið tvö jafntefli gegn Tékklandi, sem gerði út um vonir Íslands um að komast í lokakeppnina. Dagný sagði það hafa verið sérlega ánægjulegt að vinna Tékka loksins.

„Já algjörlega. Mér finnst persónulega að þegar við höfum verið að spila við Tékka höfum við ekki verið að spila bestu leikina okkar. Eiginlega öll færin okkar voru mörk í dag. Við nýttum færin vel og vörðumst vel. Aðstæður voru erfiðar í dag en mér fannst við bara gera þetta fagmannlega.“

Spurð um hvort blautt og kalt veðrið í kvöld hafi hjálpað Íslandi sagði hún: „Ég veit svo sem ekki hvernig veðrið í Tékklandi er en jú, við erum kannski vanari að spila í svona veðri held ég.“

Finnst skemmtilegra að spila framar

Dagný sagði hópinn sterkan, sem valdi því að Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari glími við lúxusvandamál við liðsval.

„Ég held að það sé bara góð blanda í liðinu og mikil samkeppni um stöður. Það eru margar sem geta spilað margar stöður á vellinum. Ég held að það sé bara jákvætt, þetta er smá lúxusvandamál sem hann hefur. Hann getur stillt okkur misjafnlega upp eftir andstæðingum. Ég held að það sé bara gott og það kemur ákveðin reynsla í liðið þannig.“

Dagný spilaði sem varnartengiliður, djúp á miðjunni, í kvöld. Hvernig þótti henni það?

„Það er langt síðan ég hef spilað djúp, bara annar leikurinn á ævi minni sem ég hef spilað djúp með landsliðinu, það gefur mér ákveðna reynslu líka. Ingibjörg kemur síðan inn á miðju fyrir mig og það er fínt að allir séu að fá sína reynslu held ég. Ég hef ekki spilað mikið djúp á mínum ferli.

Þegar ég spilaði með Portland 2019 spilaði ég hálft tímabil djúp og ég held að ég hafi spilað einn leik djúp 2014, fyrsta leikinn með Freysa [Frey Alexanderssyni]. Þannig að það er langt síðan ég spilaði djúp en ég spila þar sem þeir þurfa á mér að halda. Ég viðurkenni að mér finnst skemmtilegra að vera fremri miðja eða „box-to-box“ en ef þeir vilja að ég spili djúp þá spila ég djúp,“ sagði hún.

Þrátt fyrir að spila aftar á vellinum í kvöld skoraði Dagný eitt marka Íslands, laglegt skallamark sem kom Íslandi í 2:0. Henni þótti það vitanlega skemmtilegt að skora.

„Já það var mjög gaman. Ég þarf að nýta færin, föstu leikatriðin þegar ég fæ færi inni í teig. Það var auðvitað gaman að setja hann og líka gaman að sjá að við vorum með fjóra mismunandi markaskorara, sem er bara frábært,“ sagði Dagný í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert