Holland skoraði átta gegn Kýpur

Jill Roord, hér í skallaeinvígi við Alexöndru Jóhannsdóttur í síðasta …
Jill Roord, hér í skallaeinvígi við Alexöndru Jóhannsdóttur í síðasta mánuði, skoraði þrennu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Evrópumeistarar Hollands lentu ekki í neinum vandræðum með Kýpur þegar liðin mættust í C-riðli undankeppni HM 2023, riðlinum sem Ísland er í. Lokatölur urðu 8:0, Hollendingum í vil.

Tónninn var strax gefinn því staðan var orðin 3:0 eftir aðeins 19 mínútna leik.

Það reyndust einnig hálfleikstölur og byrjuðu Hollendingar af enn meiri krafti í síðari hálfleik þar sem staðan var orðin 6:0 eftir aðeins 53 mínútur.

Undir lokin, á 81. og 87. mínútu, bættu Hollendingar við tveimur mörkum til viðbótar og afskaplega auðveldur átta marka sigur niðurstaðan.

Jill Roord skoraði þrennu fyrir Holland og þær Vivianne Miedema, Danielle van de Donk, Joelle Smits og Merelle van Dongen skoruðu eitt mark hver, auk þess sem eitt markið var sjálfsmark Kýpurkvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert