Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var sáttur með frammistöðu Guðnýjar Árnadóttur í 4:0-stórsigri Íslands gegn Tékklandi í C-riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.
Guðný, sem er samnngsbundin AC Milan á Ítalíu, lék í stöðu hægri bakvarðar í leiknum líkt og hún gerði í fyrsta leik undankeppninnar gegn Hollandi hinn 21. september á Laugardalsvelli.
„Hún er að þróast og þroskast sem leikmaður og ég var sáttur með hana í kvöld,“ sagði Þorsteinn þegar hann var spurður út í frammistöðu leikmannsins á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld.
Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður liðsins, sat einnig fyrir svörum á blaðamannafundinum og ávarpaði blaðamenn eftir að Þorsteinn hafði svarað spurningum tengdum Guðnýju.
„Heyrðuð þið ekkert í Steina þarna á hliðarlínunni?“ sagði Glódís en Guðný lagði upp fjórða mark íslenska liðsins með laglegri fyrirgjöf inn á teiginn sem Gunnhildur Yrsa skoraði úr af stuttu færi.
„Rétt áður en Guðný sendi fyrir þá öskrar Steini NEI! Gefðu boltann út!“ sagði Glódís.
„Hún tekur allavega sínar eigin ákvarðanir, ánægð með hana,“ bætti Glódís Perla við á fundinum.