Daníel Tristan Guðjohnsen var á skotskónum fyrir íslenska U17-ára landsliðs drengja í knattspyrnu sem gerði 1:1-jafntefli gegn Georgíu í fyrstu umferð undankeppni EM 2022 í Budaörs í Ungverjalandi í dag.
Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Daníel Tristan jafnaði metin fyrir íslenska liðið á 81. mínútu eftir að Georgía komst yfir undir lok fyrri hálfleiks.
Daníel Tristan er þar með sjötti Guðjohnseninn sem skorar fyrir Ísland en fyrir höfðu þeir Arnór Guðjohnsen, Eiður Smári Guðjohnsen, Arnór Borg Guðjohnsen, Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Lucas Guðjohnsen allir skorað fyrir íslenskt landslið í einhverjum aldursflokki.
Arnór er faðir Eiðs Smára og Arnórs Borg en Sveinn Aron, Andri Lucas og Daníel Tristan eru synir Eiðs Smára.
Íslenska U17-ára landsliðið leikur í D-riðli 1. umferðar undankeppninnar ásamt Ungverjalandi, Georgíu og Eistlandi en næsti leikur íslenska liðsins er gegn Eistlandi á mánudaginn.
Þrjú efstu lið riðilsins komast áfram í 2. umferð A-deildar undankeppninnar en liðið sem hafnar í neðsta sæti riðilsins fellur í B-deild.