Glódís Perla Viggósdóttir átti góðan leik í hjarta varnarinnar hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu þegar liðið vann stórsigur gegn Tékklandi í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.
Leiknum lauk með 4:0-stórsigri íslenska liðsins en Glódís Perla, sem er einungis 26 ára gömul, var að leika sinn 95 A-landsleik.
Glódís Perla hefur verið fastakona í vörn íslenska liðsins undanfarin áratug en síðustu fimm ár þrjú ár hefur hún leikið með Sif Atladóttur, Ingibjörgu Sigurðardóttur og nú Guðrúnu Arnardóttur í hjarta varnarinnar en Guðrún kom nokkuð óvænt inn í byrjunarlið íslenska liðsins í kvöld.
„Þetta eru allt ólíkir leikmenn og öðruvísi týpur af varnarmönnum,“ sagði Glódís á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir leikinn gegn Tékklandi.
„Að sama skapi þá hef ég æft með þeim lengi þótt ég hafi kannski ekki endilega spilað marga leiki með þeim öllum. Ég þekki þær því allar vel og veit hverjir styrkleikar þeirra eru.
Auðvitað er ákveðin tryggð fólgin í því að spila alltaf með sama leikmanninum í hjarta varnarinnar en það skiptir í raun engu máli hver spilar þessar stöður. Við myndum allar finna út úr því og finna góða lausn á því,“ bætti Glódís Perla við.