„Við fengum allir sendan tölvupóst með einhverju plani fyrir mánuðinn,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Leifur Garðarsson var þjálfari Víkings á árunum 2009 til 2011 en í febrúar 2011 fengu leikmenn Víkings óvart sent áhugavert Excel-skjal frá stjórnarmanni í félaginu.
Í Excel-skjalinu hafði þjálfarinn raðað leikmönnum liðsins í flokka, frá A til D, þar sem hann fór yfir mikilvægi þeirra og oft fylgdi áhugaverð umsögn með í för en listinn átti alls ekki að fara á leikmannahópinn.
„Þarna var svo listi þar sem menn voru flokkaðir eftir því hversu góðir þeir væru og það var í raun bara búið að ákveða það þarna hvort þeir væru að fara spila um sumarið eða ekki,“ sagði Halldór Smári.
„Það var umsögn við hvern einasta leikmann og þarna stóð meðal annars að ég ætti í andlegum erfiðleikum. Ég veit ennþá ekki hvaðan það kom en á blaði hljómar þetta eins og maður hafi verið í einhverjum sjálfsvígshugleiðingum,“ bætti Halldór Smári við.
Viðtalið við Halldór Smára í heild sinni má nálgast með því að smella hér.