Sveindís Jane Jónsdóttir, sóknarkona íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad, þar sem hún er á láni frá þýska félaginu Wolfsburg, segist búast við því að spila með Wolfsburg á næsta tímabili.
Sveindís Jane hefur spilað vel með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hún er með 6 mörk og fjórar stoðsendingar í 17 leikjum. Hún kveðst þó ekki fyllilega sátt eigin frammistöðu á tímabilinu.
„Svona já og nei. Ég missti af einhverjum 2-3 leikjum, það hefði verið gott að missa ekki neitt úr. Það hefur ekki gengið neitt rosa vel að skora en við erum á fínum stað í deildinni eins og er.
Erum í Meistaradeildarsæti. Eftir allt saman lítur það bara ágætlega út,“ sagði Sveindís Jane á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag, spurð hvort hún væri sátt við tímabilið sitt.
Hún sagðist búast við því að fara til Wolfsburg að loknu tímabili, en þýska félagið keypti hana fyrir um ári síðan og lánaði strax til Kristianstad.
„Planið er allavega að fara í Wolfsburg. Ég er komin með dagsetningu varðandi það hvenær ég á að fara, sem er núna í desember. Allavega eins og þetta lítur út núna þá er ég á leiðinni þangað eftir tímabilið.“
Sveindís Jane var þá spurð hvað henni þætti um skrefið sem hún tók frá Íslandi til Svíþjóðar og hvernig það myndi hjálpa henni að taka skrefið upp á við í þýsku 1. deildina.
„Ég er mjög ánægð með þetta skref. Ég held að það hafi verið mikilvægt fyrir mig núna að hafa tekið þetta skref til Svíþjóðar fyrst og að ég fengi að spila svona mikið.
Það var ekkert víst að ég hefði fengið svona mikinn spiltíma ef ég hefði farið beint til Þýskalands þannig að ég er mjög ánægð með þetta núna og er tilbúnari í næsta skref,“ sagði hún.