Aron á heimleið

Aron Jóhannsson í leik með Hammarby á síðasta ári.
Aron Jóhannsson í leik með Hammarby á síðasta ári. Ljósmynd/Hammarby

Aron Jóhannsson er á leiðinni til karlaliðs Vals í knattspyrnu og mun skrifa undir samning við félagið á allra næstu dögum.

Fréttablaðið greinir frá og kveðst hafa öruggar heimildir fyrir.

Aron var síðast á mála hjá pólska félaginu Lech Poznan en fékk samningi sínum rift í lok ágúst.

Hann á að baki 19 landsleiki fyrir Bandaríkin, þar sem hann skoraði fjögur mörk á árunum 2013-2015 og lék meðal annars á HM í Brasilíu árið 2014.

Aron er uppalinn hjá Fjölni og lék síðast með liðinu í næstefstu deild sumarið 2010 áður en hann gekk til liðs við AGF í Danmörku.

Síðan þá hefur hann leikið með AZ Alkmaar í Hollandi, Werder Bremen í Þýskalandi og Hammarby í Svíþjóð áður en hann stoppaði stutt í Póllandi á þessu ári.

Samkvæmt Fréttablaðinu fundaði Aron með forsvarsmönnum FH, Breiðabliks, tvöfaldra meistara Víkings auk Vals og tók að lokum þá ákvörðun að velja síðastnefnda félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert