Bein útsending fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ

Hannes Þór Halldórsson lék 77 A-landsleiki fyrir Ísland.
Hannes Þór Halldórsson lék 77 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Unnur Karen

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu, ræddi hamaganginn í kringum íslenska karlalandsliðið í útvarpsþættinum Segðu mér á Rás 1 í morgun.

Markvörðurinn, sem er 37 ára gamall, lagði landsliðsskóna á hilluna eftir landsleikjagluggann í september lék 77 A-landsleiki fyrir Ísland en hann var í stóru hlutverki hjá landsliðinu á EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.

„Þetta var erfitt og þetta er auðvitað bara mjög flókið mál í alla staði,“ sagði Hannes.

„Ég var með liðinu í september þegar mesti hitinn var í gangi og þá vissi enginn í hvorn fótinn átti að stíga. Við vorum fyrst og fremst að reyna einbeita okkur að þessum leikjum  og á sama tíma að reyna fylgjast með því hvort stjórnin væri á útleið eða ekki.

Það var bein útsending fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ marga daga í röð enda ansi stórt mál sem hefur gert það að verkum að kynslóðaskiptin hafa átt sér stað fyrr en reiknað með var. Liðið getur hins vegar einbeitt sér að því að spila fótbolta núna og þarf ekki að spá í öðrum málum,“ bætti Hannes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert