„Ég er mjög ánægður með sigurinn þó við hefðum alveg getað spilað betur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld.
Ísland vann öruggan 5:0-sigur gegn Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn var eign íslenska liðsins og algjör einstefna strax frá fyrstu mínútu.
„Við skoruðum fimm mörk sem er mjög jákvætt og við unnum þennan leik mjög sannfærandi líka sem er alltaf gott.
Ég talaði um það við stelpurnar í hálfleik að halda uppi hraðanum. Það var alveg kraftur í okkur í fyrri hálfleik og við vorum að skapa okkur ágætis stöður en við vorum kannski helst til of rólegar á köflum,“ sagði Þorsteinn.
Kýpur hafði tapað síðustu tveimur leikjum sínum 0:8, gegn Tékklandi og Hollandi, og hefði íslenska liðið hæglega getað skorað fleiri mörk í leiknum.
„Það vantaði aðeins meiri ró á síðasta þriðjungi vallarins en á sama tíma er maður ekki að fara kvarta eitthvað sérstaklega yfir 5:0-sigri, það væri hálfgerður dónaskapur,“ bætti Þorsteinn við.