Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvívegis fyrir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þegar liðið vann öruggan sigur gegn Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld. Leiknum lauk með 5:0-sigri íslenska liðsins en staðan var 3:0 í hálfleik.
Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi yfir strax á 14. mínútu með laglegum skalla eftir að Amanda Andradóttir fékk boltann úti vinstra megin. Hún fór illa með varnarmenn Kýpur og kom boltanum upp á Elísu Viðarsdóttur sem var í góðu hlaupi.
Elísa átti frábæra vinstrifótar sendingu fyrir markið á Dagnýju sem stökk hæst í teignum en hún skallaði boltann í tómt markið eftir að Eleni Ttakka í marki Kýpur hafði misreiknað boltann.
Sveindís Jane Jónsdóttir bætti við öðru marki Íslands sjö mínútum síðar en hún fékk þá boltann úti hægri megin, keyrði á varnarmenn Kýpur, og þrumaði boltanum með hægri fæti upp í samskeytin hægra megin.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir bætti svo við þriðja marki Íslands undir lok fyrri hálfleiks en Guðný Árnadóttir átti þá góða fyrirgjöf frá hægri sem Ttakka í marki Kýpur misreiknaði.
Boltinn fór af varnarmanni Kýpur og datt beint fyrir fætur Karólínu sem renndi boltanum í autt markið.
Sveindís Jane bætti við fjórði marki Íslands á 55. mínútu en Elísa Viðarsdóttir átti þá flotta fyrirgjöf frá vinstri sem fór yfir varnarmenn Kýpur.
Sveindís virtist ætla að senda boltann fyrir markið en hún stýrði honum snyrtilega í fjærhornið og staðan orðin 4:0.
Alexandra Jóhannsdóttir bætti við fimmta marki íslenska liðsins á 64. mínútu þegar hún skallaði boltann í fjærhornið úr miðjum teignum eftir hornspyrnu Amöndu Andradóttur.
Ísland fer með sigrinum upp í annað sæti riðilsins og er með 6 stig eftir þrjá spilaða leiki, tveimur stigum meira en Tékkland.
Holland er sem fyrr í efsta sætinu með 10 stig, Hvíta-Rússland er með 3 stig í fjórða sætinu og Kýpur er án stiga í fimmta og neðsta sætinu.