„Ég hefði viljað sjá fleiri stuðningsmenn í stúkunni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld.
Ísland vann öruggan 5:0-sigur gegn Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld en íslenska liðið stjórnaði ferðinni allt frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.
Alls mættu 2.175 áhorfendur á leikinn í kvöld eftir heldur dræma mætingu á leikinn gegn Tékklandi á föstudaginn síðasta þar sem 1.474 voru á vellinum.
„Mér finnst stelpurnar eiga það skilið að fleiri mæti á völlinn og ég vil sjá 5.000 til 6.000 manns á vellinum þegar þær spila,“ sagði Þorsteinn.
Þær eru bara það góðar og eins og ég sagði áðan þá eiga þær það skilið,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.