„Það var gaman að spila þennan leik,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, miðjukona íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í kvöld.
Alexandra lék allan leikinn í öruggum 5:0-sigri íslenska liðsins gegn Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.
Þá skoraði hún fimmta og síðasta mark íslenska liðsins með laglegum skalla eftir hornspyrnu Amöndu Andradóttur.
„Leikurinn spilaðist nokkurnvegin eins og við áttum von á, það er að segja að þær myndu liggja aftarlega og freista þess að beita skyndisóknum,“ sagði Alexandra.
„Ég bjóst reyndar við því að ég myndi fá meiri tíma á boltanum en þetta var klárlega krefjandi leikur að spila og kannski meira andlegt frekar en líkamlegt að halda einbeitungu allan tímann.“
Kýpverska liðið hefur ekki riðið feitum hesti í undankeppni HM en liðið er án stiga eftir fjóra leiki, hefur skorað eitt mark og fengið á sig 25 mörk.
„Persónulega fannst mér ekki erfitt að gíra mig upp í þennan leik. Ég datt úr liðinu fyrir Tékkaleikinn og var því tilbúin að gera allt til þess að sanna mig í kvöld,“ sagði Alexandra.