„Tel okkur eiga ágætis möguleika“

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari var viðstaddur dráttinn í Manchester í dag.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari var viðstaddur dráttinn í Manchester í dag. AFP

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, telur liðið eiga prýðis möguleika á að komast upp úr D-riðlinum á EM 2022 á Englandi næstkomandi sumar.

Ísland dróst í riðil með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu. „Bara fína sko, við spiluðum tvo hörkuleiki við Ítalíu í apríl og Frakkarnir eru alltaf sterkir.

Belgía er lið sem við eigum alveg að geta unnið líka. Ég tel okkur eiga ágætis möguleika,“ sagði Þorsteinn á Teams-fjarfundi með fréttamönnum eftir dráttinn í Manchester, þar sem hann var viðstaddur.

Í vináttuleikjunum sem Þorsteinn vísar til í vor vann Ítalía fyrri leikinn 1:0 og síðari leiknum lauk með 1:1 jafntefli.

Spurður hvort hann hefði frekar vilja lenda í A-riðli með gestgjöfum Englands sagði Þorsteinn:

„Nei, þetta er bara riðill sem við lendum í og við vinnum út frá því. Það hefði verið gaman að spila opnunarleikinn og allt það en í sjálfu sér snýst þetta bara um það að þetta er riðilinn sem við erum í. Við einbeitum okkur að því og hættum að láta okkur dreyma um eitthvað.“

Þekkir lítið til Belganna

Sem áður segir þekkir íslenska liðið vel til þess ítalska en Þorsteinn var einnig spurður nánar út í Frakkland og Belgíu.

„Það eina sem ég get í sjálfu sér tjáð mig um er að ég þekki ítalska liðið orðið ágætlega vel. Það eru tvö ár síðan Ísland spilaði við Frakkland og tapaði þá 0:4 í mjög erfiðum leik. Frakkarnir eru góðir en við teljum okkur vera í framför og að við eigum góða möguleika á móti þeim.

Belgana veit ég ekkert mikið um þannig en ef við skoðum bara hlutina, hvernig þeir líta út gagnvart stöðu þeirra í styrkleikaflokki og við hverja þeir hafa verið að spila að undanförnu þá tel ég okkur eiga ágætis möguleika á móti þeim,“ sagði hann.

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn var einnig spurður hvort undirbúningur fyrir EM hefjist strax nú þegar ljóst hverjir andstæðingar Íslands verða.

„Í nóvember byrjum við að leikgreina leikina sem þessi lið spila þá og svo í næstu landsleikjagluggum þar á eftir. En mitt verkefni núna verður bara að fókusa á nóvembergluggann hjá okkur. Það fara aðrir í það að byrja að fara á leiki og svoleiðis.

Síðan hefst það eftir áramót hjá mér sjálfum að byrja að skoða þetta. Hópurinn sem er í kringum liðið akkúrat núna er bara að fókusera á undankeppni HM. Það fara aðrir aðilar í það að byrja að leikgreina, fara á leiki, sjá hin liðin og fara í gegnum þessa hluti fyrir EM,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert