Hættir 21 árs eftir dvöl á Íslandi

Magnus Anbo, til vinstri, í Evrópuleik með Stjörnunni gegn Bohemians …
Magnus Anbo, til vinstri, í Evrópuleik með Stjörnunni gegn Bohemians á Írlandi í sumar. Ljósmynd/Inpho Photography

Danski knattspyrnumaðurinn Magnus Anbo hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, aðeins 21 árs gamall, eftir að hafa spilað með Stjörnunni í Garðabæ á nýliðnu keppnistímabili.

Anbo var í láni hjá Stjörnunni frá AGF í Árósum en þar er hann uppalinn og hefur verið í aðalliðshópi félagsins frá árinu 2019.

AGF skýrði frá því á dögunum að Anbo hefði fengið samningi sínum við félagið rift í síðustu viku og í viðtali við Tipsbladet segir miðjumaðurinn að hann sé viss um að hafa tekið rétta ákvörðun.

„Ég átti mjög góða sex mánuði á Íslandi og skil því við fótboltann á góðum nótum. Nú er togað í mig frá öðrum sviðum og ég er meðal annars með framhaldsnám í huga. Ég hefði alveg getað beðið og spilað fram að 25 ára aldri en þá hefði það verið mjög erfitt. Það er sjaldgæft að sjá leikmenn láti drauminn um atvinnumennsku í fótbolta rætast og hætti svo eftir þrjú ár. Ég mat þetta þannig að annaðhvort myndi ég hætta núna eða ekki fyrr en eftir fimm til tíu ár," segir Anbo við Tipsbladet.

„Ég sagði alltaf að það væri mitt draumastarf að verða knattspyrnumaður, og þannig var það, en er það bara ekki lengur," segir Anbo ennfremur.

Magnus Anbo lék 16 leiki með Stjörnunni í úrvalsdeildinni á nýliðnu keppnistímabili og skoraði í þeim þrjú mörk. Hann lék einnig báða Evrópuleiki Garðabæjarliðsins og eina leik þess í bikarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert