Heldur áfram í Garðabænum

Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn reyndi Kristján Guðmundsson verður áfram þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar en hann hefur nú framlengt samning sinn við Garðabæjarfélagið til tveggja ára.

Kristján tók við Stjörnunni í árslok 2018 og hefur byggt upp nýtt lið á þeim tíma en mikil umskipti urðu hjá félaginu eftir mesta blómaskeiðið í sögu liðsins á árunum 2011 til 2016 þegar það varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari.

Stjarnan hafnaði í fjórða sæti á nýliðnu keppnistímabili og í tilkynningu Stjörnunnar segir að mikil ánægja sé með störf Kristjáns og tilhlökkunarefni að fylgjast með liðinu halda áfram að þróast undir hans stjórn.

Stjarnan er fyrsta kvennaliðið sem Kristján þjálfar á löngum ferli en hann var áður með karlalið ÍR, Þórs, Keflavíkur, HB í Þórshöfn, Vals, Keflavíkur, Leiknis í Reykjavík og ÍBV. Bæði Keflavík og ÍBV urðu bikarmeistarar undir hans stjórn. Kristján hefur þjálfað meistaraflokks frá árinu 1995.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert