Íslenska landsliðið mætir Frakklandi, Ítalíu og Belgíu í lokakeppni EM kvenna í knattspyrnu sem fram fer á Englandi næsta sumar. Dregið var í riðlana fjóra í Manchester í gær en Ísland var í fjórða styrkleikaflokki í niðurröðun fyrir lokakeppnina.
Fyrsti leikur Íslands verður gegn Belgíu á Manchester City Academy Stadium í Manchester hinn 10. júlí. Hina tvo leikina í riðlinum mun Ísland spila á New York Stadium í Rotherham. Væntingar um að Ísland myndi leika í riðlinum á þekktum leikvöngum eins og Old Trafford í Manchester, St. Mary´s í Southampton eða Bramall Lane í Sheffield urðu því ekki að veruleika. Leikurinn gegn Ítalíu verður 14. júlí og Frakkland verður síðasti andstæðingur Íslands í riðlinum hinn 18. júlí. Íslenska liðið mun því spila þrjá leiki á rúmri viku.
Ísland fékk Frakkland úr efsta styrkleikaflokki. Verður þetta fjórða skiptið í röð sem Ísland leikur í lokakeppni EM og í þriðja skiptið sem Frakkland er með Íslandi í riðli.
Franska liðinu er raðað niður sem fjórða sterkasta liðinu í keppninni. Á styrkleikalista FIFA er franska liðið í 5. sæti en þær Evrópuþjóðir sem eru ofar á þeim lista eru Svíar, Þjóðverjar og Hollendingar.
Fjallað er um mótherja Íslands á EM í Morgunblaðinu í dag.