Miðjumaðurinn þaulreyndi, Eyjólfur Héðinsson, er genginn í raðir uppeldisfélags sín ÍR eftir að hafa verið síðustu sex ár hjá karlaliði Stjörnunnar í knattspyrnu.
Í morgun var tilkynnt að Eyjólfur væri búinn að yfirgefa Stjörnuna og nú í hádeginu tilkynnti knattspyrnudeild ÍR að hann væri kominn aftur heim. ÍR leikur í 2. deild.
„Eyjólfur Héðinsson gekk í dag formlega til liðs við ÍR og mun leika með liðinu á komandi tímabili. Eyjólfur sleit barnsskónum í Breiðholtinu en hefur síðan árið 2002 leikið með Fylki, GAIS í Svíðþjóð og Sönderjyske og Midtjylland í Danmörku en í Midtjylland varð Eyjó einmitt danskur meistari.
Hann kemur nú heim frá Stjörnunni eftir farsæla tíma þar. Það er okkur ÍR-ingum sönn ánægja að Eyjó sé snúinn aftur heim en hann mun ásamt því að spila með liðinu koma að þjálfun í barna- og unglingastarfi félagsins,“ sagði í tilkynningunni.