Besti leikmaður Keflavíkur í Breiðablik

Natasha Anasi ásamt Ásmundi Arnarssyni, þjálfara Breiðabliks.
Natasha Anasi ásamt Ásmundi Arnarssyni, þjálfara Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Breiðablik gekk í kvöld frá tveggja ára samningi við knattspyrnukonuna Natasha Anasi en hún kemur til félagsins frá Keflavík þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017.

Natasha er þrítug og lék þrjú tímabil með ÍBV þegar hún kom fyrst hingað til lands árið 2014, en hún er fædd í Texas í Bandaríkjunum.

Natasha fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári og hefur leikið tvo landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún hefur verið besti leikmaður Keflavíkur undanfarin ár, en liðið hélt sér í efstu deild á síðustu leiktíð, þá sem nýliði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert