Edda Garðarsdóttir hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Þróttar í Reykjavík. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.
Samningurinn er til næstu tveggja ára en Edda hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins frá árinu 2019.
Hún á að baki 172 leiki í efstu deild með KR og Breiðabliki en hún stýrði KR í efstu deild kvenna tímabilin 2016 og 2017.
„Edda hefur verið aðstoðarþjálfari Þróttar frá árinu 2019 og unnið náið með Nik Chamberlain að uppbyggingu liðsins sem náði 3ja sæti í Pepsi Max-deild kvenna síðastliðið sumar og komst í úrslit Mjólkurbikarsins,“ segir meðal annars í tilkynningu Þróttara.