Knattspyrnumaðurinn Pétur Theódór Árnason er að öllum líkindum með slitið krossband. Þetta staðfesti hann í samtali við fótbolta.net í dag.
Pétur gekk til liðs við Breiðablik frá Gróttu eftir tímabilið en hann meiddist á æfingu Kópavogsliðsins í gær.
„Ég sem sagt meiddist á æfingu í gær, það er eitthvað sem gerist í hnénu sem ég kannast smá við,“ sagði Pétur í samtali við fótbolta.net.
„Ég er ekki búinn að fá út úr neinu. Ég hef slitið krossband tvisvar áður, síðast fyrir sjö árum. Þetta hljómaði mjög kunnuglega. Ég er á hækjum, mjög bólginn og með einhvern verk.
Ég er á verkjalyfjum og er að bíða eftir segulómun. Ég vonast eftir því að fá niðurstöðu úr því í vikunni,“ bætti Pétur.
Pétur var markahæsti leikmaður 1. deildarinnar síðasta sumar með 19 mörk en hann á að baki 18 leiki í efstu deild með Gróttu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.
Þetta er mikið áfall fyrir Breiðablik en Árni Vilhjálmsson, framherji Blika, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu og því gæti félagið þurft að leita að nýjum framherja fyrir komandi tímabil.