Knattspyrnukonan Bryndís Arna Níelsdóttir er gengin til liðs við Íslandsmeistara Vals samkvæmt heimildum mbl.is.
Hún skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í gær en Bryndís Arna kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Fylki.
Bryndís Arna, sem er einungis 18 ára gömul, á að baki 43 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 18 mörk.
Hún skoraði sex mörk í þrettán leikjum með Fylki í efstu deild en hún missti af seinni hluta síðasta tímabils eftir að hún viðbeinsbrotnaði og hafði það mikil áhrif á gengi Fylkiskvenna sem féllu úr efstu deild.
Bryndís mætti á sína fyrstu æfingu hjá Val í dag en hún á að baki 14 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur skorað sex mörk.