Heiðar rær á önnur mið

Heiðar Ægisson klæðist ekki bláu treyjunni á næsta tímabili.
Heiðar Ægisson klæðist ekki bláu treyjunni á næsta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Heiðar Ægisson, hinn fjölhæfi leikmaður karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu, hefur ákveðið að framlengja ekki samning sinn við uppeldisfélagið og er því laus allra mála.

Heiðar er 26 ára gamall og hefur verið í herbúðum Garðabæjarliðsins allan sinn feril.

„Heiðar Ægisson hefur ákveðið að róa á önnur mið. Heiðar lék 153 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim þrjú mörk og hefur átt stóran þátt í velgengni félagsins á undanförnum árum.

Við óskum Heiðari velfarnaðar í næstu verkefnum sínum og þökkum jafnframt fyrir hans framlag í gegnum árin!“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Stjörnunnar.

Á dögunum greindi Hrafnkell Freyr Ágústsson, sparkspekingur í hlaðvarpinu Dr. Football, frá því að Heiðar myndi skrifa undir samning við Val.

Ekki hefur þó verið tilkynnt um þau vistaskipti og hefur Heiðar meðal annars einnig verið orðaður við FH.

Heiðar á að baki 12 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af átta fyrir U21-árs liðið, þar sem hann skoraði eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert