Knattspyrnudeild Vals hefur gengið frá samningi við sóknarmanninn Aron Jóhannsson og bakvörðinn Heiðar Ægisson. Gera þeir báðir þriggja ára samning við Val, en þeir voru kynntir á blaðamannfundi í Fjósinu á Hlíðarenda í dag.
Aron er 31 árs framherji sem hefur leikið sem atvinnumaður erlendis frá árinu 2010. Hann lék síðast með Lech Poznan í Póllandi en hann hefur einnig leikið með Werder Bremen í Þýskalandi, Hammarby í Svíþjóð, AZ Alkmaar í Hollandi, AGF í Danmörku og Fjölni.
Aron lék með U21 árs landsliði Íslands en hann ákvað að lokum að leika með bandaríska A-landsliðinu. Þar lék hann 19 leiki og skoraði fjögur mörk. Aron hefur leikið 230 deildaleiki á ferlinum, í sex löndum, og skorað í þeim 82 mörk.
Heiðar er 26 ára hægri bakvörður sem hefur leikið með Stjörnunni allan sinn feril. Hann á að baki 128 úrvalsdeildarleiki fyrir Garðabæjarliðið og skoraði í þeim tvö mörk og er fjórði leikjahæsti leikmaður Stjörnunnar frá upphafi í deildinni.