Framherjinn Aron Jóhannsson er annar tveggja leikmanna sem voru tilkynntir sem nýjir leikmenn Vals á blaðamannafundi félagsins í dag. Aron segist vera spenntur fyrir verkefninu.
„Tilfinningin er nokkuð góð, ég er mjög spenntur fyrir þessu. Ég er búinn að vera í útlöndum mjög lengi, kominn heim í stórt félag á Íslandi og er bara mjög spenntur.“
„Ég meiðist á öxl úti í Póllandi og fæ að rifta samningnum mínum þar. Síðan kem ég heim með konunni, byrja að ræða við félög og við ákveðum að kýla á þetta.“
Aron segist hafa rætt við mörg lið en Valur hafi heillað mest.
„Ég átti samtal við FH, Breiðablik og Víking. Það er bara gaman að ég sé kominn í þá stöðu að ég geti rætt við öll þessi lið og að þau hafi öll viljað fá mig, ég er mjög stoltur af því. Valur var svo mest heillandi kosturinn þegar uppi var staðið.“
Aron spilaði sem atvinnumaður í 11 ár en segist spenntur fyrir því að spila aftur á Íslandi og í aðstæðunum sem geta fylgt því. Markmiðin eru skýr, það á að vinna titla.
„Ég horfi alltaf á íslensku deildina og hef gert það í öll þessi ár. Maður finnur það núna að Valsmenn eru ekki sáttir, að lenda í fimmta sæti er ekki gott. Ég er kominn hingað til þess að vinna, þeir eru á sama máli með það og mér finnst gaman að koma inn í klúbb sem hugsar bara um að vinna.“