Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, tilkynnti á blaðamannafundi í dag hvaða leikmenn skipa landsliðið sem mætir Rúmeníu og N-Makedóníu í undankeppni HM 2022.
Um er að ræða síðustu tvo leiki Íslands í riðlinum. Ísland er í 5. sæti í riðlinum af sex liðum með 8 stig eftir átta leiki. Ísak Óli Ólafsson, Arnór Ingvi Traustason og Aron Elís Þrándarson koma inn í hópinn en voru ekki í síðasta verkefni.
Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson eru báðir í leikmannahópnum. Birkir Bjarna hefur leikið 103 A-landsleiki og Birkir Már leikið 102 en Rúnar Kristinsson er leikjahæstur frá upphafi með 104 A-landsleiki.
Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason vildu að sögn Arnars Þórs fá tækifæri til að ná sér betur á strik áður en þeir mæta í næsta landsliðsverkefni en báðir hafa fengið sinn skammt af meiðslum.
Staðan varðandi Aron Einar Gunnarsson er sú sama og síðast að sögn Arnars Þórs. Utanaðkomandi aðstæður eru ástæða þess að hann er ekki í hópnum.
Guðlaugur Victor Pálsson og Hjörtur Hermannsson eru ekki með af persónulegum ástæðum.
Arnór Ingvi Traustason er í hópnum í fyrsta sinn síðan í mars og þeir Aron Elís Þrándarson og Ísak Óli Ólafsson bætast einnig í hópinn en þeir voru síðast með í vináttuleikjunum í júní.
Landsliðshópur Íslands:
Markverðir:
12/0 Rúnar Alex Rúnarsson - OH Leuven
2/0 Elías Rafn Ólafsson - Midtjylland
0/0 Patrik Sigurður Gunnarsson - Viking Stavanger
Varnarmenn:
102/4 Birkir Már Sævarsson - Valur
82/0 Ari Freyr Skúlason - Norrköping
10/0 Guðmundur Þórarinsson - New York City
8/2 Brynjar Ingi Bjarnason - Lecce
6/0 Alfons Sampsted - Bodo/Glimt
3/0 Daníel Leó Grétarsson - Blackpool
1/0 Ari Leifsson - Strömsgodset
1/0 Ísak Óli Ólafsson - SönderjyskE
Miðjumenn:
103/14 Birkir Bjarnason - Adana Demirspor
40/5 Arnór Ingvi Traustason - New England Revolution
8/1 Ísak Bergmann Jóhannesson - Köbenhavn
8/0 Andri Fannar Baldursson - Köbenhavn
6/0 Aron Elís Þrándarson - OB
5/1 Stefán Teitur Þórðarson - Silkeborg
5/0 Þórir Jóhann Helgason - Lecce
Sóknarmenn:
32/4 Viðar Örn Kjartansson - Vålerenga
27/6 Albert Guðmundsson - AZ Alkmaar
14/1 Jón Dagur Þorsteinsson - AGF
6/0 Sveinn Aron Guðjohnsen - Elfsborg
4/2 Andri Lucas Guðjohnsen - Real Madrid Castilla
2/0 Mikael Egill Ellertsson - SPAL