Bakvörðurinn Heiðar Ægisson var annar tveggja leikmanna sem kynntir voru til Vals í dag. Heiðar kemur til Vals frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni. Heiðar var til viðtals á blaðamannafundi Valsmanna í Fjósinu á Hlíðarenda í dag.
„Þetta er frábær tilfinning. Valur er með háleit markmið og skýra stefnu sem rímar mjög vel við mín plön. Aðdragandinn var ekki langur, bara nokkrar vikur. Þegar Valur kom inn í myndina þá var þetta fljótt að gerast.“
Heiðar segist hafa fundið fyrir áhuga frá mörgum liðum.
„Ég fékk nokkur mjög spennandi tilboð frá öðrum liðum og ég er bara þakklátur fyrir þann áhuga sem mér er sýndur en Valur varð lokaniðurstaðan. Það kom vel til greina að vera áfram í Stjörnunni og þetta var ekki auðveld ákvörðun. Það er erfitt að fara frá sínu uppeldisfélagi og það er yndislegt að vera í Garðabænum, en ég tel þetta vera rétt skref á mínum ferli.“
„Það sem seldi mér þetta í raun og veru var það að Valur er með fullt af gífurlega góðum leikmönnum, gott þjálfarateymi og það er stemning í krinum liðið. Þetta er lið sem er með háar kröfur og ætlar sér að vinna titla.“