Sjö miðverðir hafa hrokkið úr skaftinu

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson.
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að finna sjö miðverði sem spilað hafa fyrir íslenska landsliðið en Arnar Þór Viðarsson átti ekki kost á að velja í leikina gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu í undankeppni HM í knattspyrnu. 

Kári Árnason hefur lagt skóna á hilluna. Sverrir Ingi Ingason, Jón Guðni Fjóluson og Hörður Björgvin Magnússon eru meiddir. Hjörtur Hermannsson gat ekki verið með af persónulegum ástæðum. Hólmar Örn Eyjólfsson gefur ekki kost á sér og Ragnar Sigurðsson er kominn heim úr atvinnumennsku og hefur ekki verið valinn að undanförnu. 

Þetta er bara staðan sem við erum í. Reyndir menn eru farnir úr þessu og þar á meðal hafsentaparið sem var lengi Kári og Raggi. Lítt reyndir leikmenn eru komnir í staðinn og fá tækifæri til að sanna sig. Þeir fá tækifæri til að spila stóra leiki í undankeppni stórmóts,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari á blaðamannafundi í dag þegar leikmannahópurinn var kynntur. 

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson bætti við að skemmtilegt sé að fylgjast með leikmönnum eins og miðverðinum Ara Leifssyni. „Hann er núna í efstu deild í Noregi og er að spila mjög vel. Það var ekki fyrirsjáanlegt fyrir tveimur árum. Sumir leikmenn eru komnir upp í þakið [hafa hámarkað sína getu] en Ari hefur ekki fundið sitt þak sem knattspyrnumaður og næsta skref fyrir hann gæti verið að spila A-landsleiki.“

Eiður Smári Guðjohnsen á fundinum í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Elís Þrándarson er einn þeirra sem fær tækifæri í hópnum að þessu sinni en hann hefur fengið hrós fyrir frammistöðu sína með OB í Danmörku. 

„Góð og gild ástæða fyrir því að Aron Elís er í hópnum. Hann hefur unnið sér sæti í hópnum með góðri spilamennsku,“ sagði Eiður og sagði að Aron gæti verið annar af fremri miðjumönnum en gæti leyst fleiri stöður. 

Mikil greiningavinna eftir landsleiki

Þjálfararnir sögðu að bæði yrði horft til frammistöðu og úrslita í leikjunum gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu sem verða síðustu leikir Íslands í þessari undankeppni. 

„Styrktarþjálfarinn hefur unnið mikla greiningavinnu fyrir okkur. Hann greinir gögnin og metur hvort liðið sé að taka þau skref sem þarf til að auka kraftinn í leik liðsins. Fótboltinn er í þróun og hlaupageta hefur aukist. Hann greinir því tölur varðandi hlaup og fleira. Varnarleikurinn var betri í síðustu leikjum heldur en í september. Það var framför sem menn vilja byggja á. Annars eru margir mismunandi hlutir og mörg lítil skref sem við þurfum að horfa til. Framundan er mikil vinna til að verða betri en ef fram heldur sem horfir getum við náð betri úrslitum í jöfnum leikjum,“ sagði Arnar. 

„Sigrar eru aðalatriðið í fótbolta. Í gegnum árin hefur íslenska landsliðið ekki alltaf spilað besta eða fallegasta fótboltann. Það vitum við öll. Nú er aðeins öðruvísi vinna í gangi enda erum við með splunkunýtt lið. Við viljum vinna leiki en viljum taka eitthvað úr leikjunum sem sýnir að kúrfan sé upp á við. Ef við hækkum standardinn þá fylgja úrslit í kjölfarið,“ sagði Eiður Smári. 

Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert