„Ég hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur uppbyggingu á Laugardalsvelli þó ég hafi ekki alveg náð að setja mig inn í allt sem snýr að þeim málaflokki,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Laugardalsvöllur var tekinn í notkun árið 1957 og er orðinn barn síns tíma en völlurinn er á undanþágu hjá bæði FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, og UEFA, evrópska knattspyrnusambandinu.
Það hefur staðið til í langan tíma að byggja nýjan þjóðarleikvang en málið hefur þokast hægt undanfarin ár og virðist ekki vera í forgangi hjá stjórnmálafólki hér á landi.
„Ég vil nota tækifærið og skora á bæði ríki og borg að koma með okkur í þetta verkefni og klára það,“ sagði Vanda.
„Aðstæðurnar á Laugardalsvelli eru hræðilegar fyrir bæði leikmenn, blaðamenn, áhorfendur og í raun alla sem að vellinum koma,“ sagði Vanda meðal annars.
Viðtalið við Vöndu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.