Knattspyrnudeild Breiðabliks setti miðasölu af stað á mánudaginn á leikinn gegn Zhytlobud Kharkiv sem fer fram fimmtudaginn 18. nóvember í Meistaradeild Evrópu og á miðvikudaginn þurfti félagið að opna á fleiri hólf vegna þess að fyrstu hólfin voru þá að fyllast.
Á síðasta heimaleik, þegar Frakklandsmeistarar PSG komu í heimsókn, var slegið áhorfendamet á kvennaleik á Kópavogsvelli þegar 1.412 manns mættu á hann.
Bæði nýja og gamla stúkan voru fullar eftir þeim takmörkunum sem voru þá og gera Blikar ráð fyrir því að uppselt verði á þennan leik líka þó búast megi við færri áhorfendum í þetta sinn þar sem nýjar, hertar samkomutakmarkanir verða í gildi.
Breiðablik fer út til Úkraínu á sunnudaginn þar sem fram undan er fyrri leikurinn í B-riðlinum gegn Zhytlobud Kharkiv þann 9. nóvember.
Því næst tekur við heimaleikur gegn Real Madríd þann 8. desember og lokaleikurinn í riðlakeppninni fer fram í París á móti PSG þann 16. desember. Boðið var upp á hópferð á þann leik með Icelandair og er sú ferð uppseld.
Það er því morgunljóst að mikill áhugi er fyrir þátttöku kvennaliðs Breiðabliks í Meistaradeildinni á meðal stuðningsfólks félagsins.