Knattspyrnukonurnar Þórdís Elva Ágústsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir eru gengnar til liðs við Íslandsmeistara Vals. Koma þær báðar frá Fylki, sem féll úr efstu deild á síðasta tímabili.
Þórdís er 21. árs miðjumaður sem hóf ferilinn með Haukum en hefur spilað fyrir Fylki síðan 2019. Þórdís Elva hefur spilað 65 leiki í efstu deild og skorað í þeim fimm mörk. Þá hefur hún leikið sjö landsleiki fyrir yngri lið Íslands.
Bryndís Arna er 18 ára framherji. Hún er uppalin í Fylki og spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2018. Hún hefur spilað 43 leiki í efstu deild og skorað í þeim 18 mörk. Þá hefur hún spilað 14 yngri landsleiki fyrir hönd Íslands og skorað í þeim sex mörk.
„Við bjóðum Þórdísi Elvu og Bryndísi Örnu velkomnar á Hlíðarenda!“ sagði í tilkynningu knattspyrnudeildar Vals.