„Ég styð Arnar Þór Viðarsson og alla hans vinnu,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Arnar Þór var ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í desember á síðasta ári en mikið hefur gustað um liðið undanfarna mánuði.
Arnar Þór hefur ekki getað valið þá leikmenn sem hann hefur haft hug á að velja í hópinn, meðal annars vegna ásakana um ofbeldis- og kynferðisbrot landsliðsmanna, og hefur því þurft að byggja upp nánast nýtt lið hjá landsliðinu.
„Mér finnst erfitt og ósanngjarnt að dæma hann af því liðna þar sem hann hefur ekki fengið almennilegt tækifæri sem þjálfari,“ sagði Vanda.
„Hann hefur þurft að gera mikið af breytingum frá því hann tók við og eins hefur hann þurft að takast á við þessu flóknu og erfiðu mál í kringum karlalandsliðið,“ sagði Vanda meðal annars.
Viðtalið við Vöndu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.