„Það verður þannig í framtíðinni innan íþróttahreyfingarinnar að þjálfurum verði settar ákveðnar skorður,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Vanda, sem er 56 ára gömul, var kjörin formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins hinn 2. október eftir að Guðni Bergsson sagði af sér eftir að sambandið hafði legið undir harðri gagnrýni fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.
Líkt og Morgunblaðið greindi frá í október hefur Arnar Þór ekki getað valið alla þá leikmenn sem hann hefur haft hug á að velja þar sem ofbeldis- og kynferðisbrotamál þeirra eru inn á borði hjá samskiptaráðgjafa íþrótta og æskulýðsstarfs.
„Það er þannig í öllum íþróttafélögunum í Reykjavík að á meðan ofbeldis- eða kynferðisbrotmál er í skoðun þá stígur viðkomandi til hliðar, svo einfalt er það,“ sagði Vanda.
„Það er hins vegar ekki það sama og að formaður einhvers sérsambands segi viðkomandi þjálfara að hann megi ekki velja þennan leikmann eða hinn. Þetta eru bara reglur sem allir munu þurfa hlíta,“ sagði Vanda meðal annars.
Viðtalið við Vöndu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.