„Áskorun að halda liðinu í leikæfingu“

Selma Sól Magnúsdóttir.
Selma Sól Magnúsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, segist vonast eftir jöfnum leik gegn Kharkiv í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu á morgun. 

Ásmundur segir Blika aðallega nota leiki úkraínska liðsins gegn Real Madríd og París Saint-Germain fyrr í keppninni sem viðmið um styrk liðsins. 

„Erfitt að bera saman deildirnar. Ef við horfum á úrslitin til þessa í riðlinum þá gæti leikurinn orðið jafn en liðið virðist vera sterkt. Við þurfum að vera vel skipulögð og vonandi gengur okkur vel. Við lítum þannig á að möguleikarnir gætu verið 50/50. Eins og áður segir þá er erfitt að bera deildirnar saman en miðað við leikina í CL þá virðast liðin hafa verið svipuð gegn Real og París. Ef við eigum góðan dag þá eigum við möguleika,“ sagði Ásmundur á blaðamannafundi í dag.

Selma Sól Magnúsdóttir var einnig til svars á fundinum: „Selma: Þegar maður veit ekki mikið um andstæðinginn þá er verkefnið alltaf erfiðara. En við höfum getað séð videó af liðinu spila gegn París og Real Madríd. Við reynum að nýta þær upplýsingar eins vel og hægt er.“ 

Allir leikmenn liðsins ættu að vera tilbúnir í slaginn: „Stutta svarið er já, þær eru allar leikfærar,“ sagði Ásmundur og sýndi þar túlknum tillitssemi sem stóð í ströngu að þýða fyrir úkraínsku blaðamennina frá ensku yfir á úkraínsku og spurningar heimamanna yfir á ensku fyrir íslensku gestina. 

Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðalagið tók tíma og gæti setið í leikmönnum. „Við getum sagt að ferðalagið hafi verið tvískipt. Fyrst til frá Íslandi til Amsterdam og þaðan til Úkraínu. Ferðalagið var nokkuð erfitt en gekk vel. Ég held að leikmennirnir geti náð úr sér ferðaþreytunni í dag.“

Úkraínsku blaðamennirnir höfðu áhuga á að vita hvort leikmenn Breiðabliks væru bólusettir gegn kórónuveirunni. 

„Við erum allar bólusettar. Í liðinu eru leikmenn sem hafa fengið veiruna en eru einnig bólusettar,“ sagði Selma og Ásmundur bætti við að hátt hlutfall þjóðarinnar væri bólusett. 

Meira en mánuður er liðinn síðan Breiðablik spilaði til úrslita í bikarkeppninni og enn lengra síðan Íslandsmótinu lauk.

„Það er áskorun að halda liðinu í leikæfingu. Helmingur liðsins fór reyndar í landsliðsverkefni í október. Ofan á það höfum við reynt að ná í æfingaleiki eins og hægt er. Við höfum þá einnig reynt að spila á móti drengjum/körlum þar sem kvennaliðin hafa verið í fríi eftir Íslandsmótið,“ sagði Ásmundur á fundinum í dag. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert